Almenni dómstóll Evrópusambandsins ógilti í dag ákvörðun framkvæmdastjórnar sambandsins sem skikkaði tæknifyrirtækið Apple til að greiða þrettán milljarða evra, jafnvirði um 2.080 milljarða íslenskra króna, í skattaskuld á Írlandi. Ákvörðunin var liður í tilraunum sambandsins til þess að vinda ofan af samningum við alþjóðleg fyrirtæki gerðu við sum Evrópulönd um að greiða litla sem enga skatta.
Dómararnir í málinu töldu ekki sýnt fram á að Apple hefði fengið samkeppnislegt forskot með samkomulagi sínu við írsk stjórnvöld samkvæmt evrópskum samkeppnislögum, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.
Apple áfrýjaði ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá árinu 2016. Breska ríkisútvarpið BBC segir að niðurstaða næstæðsta dómstóls Evrópu sé áfall fyrir Evrópusambandið og tilraunir þess til að stemma stigu við skattaundanskotum.