Meira en fimm gráðum hlýrra var í Síberíu norðan heimskautsbaugs í júní en í venjulegu árferði. Hitabylgjan hefur skapað aðstæður fyrir eina verstu gróðurelda sem geisað hafa á svæðinu samkvæmt gögnum evrópskra gervitungla.
Óvenjuhlýtt hefur verið á norðurskautssvæðum Síberíu í júní undanfarin tvö sumur sem voru þau hlýjustu frá upphafi mælinga. Júnímánuður í ár sló þeim báðum við en meðalhitinn var meira en heilli gráðu hærri nú en þá, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Á sumum svæðum var allt að tíu gráðum hlýrra en vanalega, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Alþjóðaveðurfræðistofnunin reynir nú jafnframt að staðfesta hvort að 38°C sem mældist á rússneskum veðurmæli í Verkhoyansk í Síberíu sem hæsti hiti sem mælst hefur norðan heimskautsbaugsins.
Hitinn hefur skapað kjöraðstæður fyrir gróðurelda sem hafa aðeins orðið ákafari frá því í júní. Skógræktarstofnun Rússlands segir að 246 eldar hafi geisað á rúmlega 140.000 hektara svæði í gær. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í sjö héruðum vegna eldanna.
Samkvæmt mælingum evrópska jarðrannsóknaverkefnisins Kópernikusar voru eldarnir í júní fleiri en í sama mánuði í fyrra þegar met var sett. Áætlað er að um 59 milljónir tonna koltvísýrings hafi losnað frá eldunum í ár en 53 milljónir tonna í fyrra. Til samanburðar var heildarlosun á Íslandi árið 2018 tæp fimm milljón tonn koltvísýringsígilda.
Mögulega er losun vegna eldanna vanmetin þar sem evrópsku gervitunglin greina ekki alla elda í mólendi sem brenna í glæðum. Áætlað er að gróðureldar á norðurskautinu hafi losað meira en 170 milljónir tonna koltvísýrings.
„Þetta er í samræmi við spár um hnattræna hlýnun sem ná nú áratugi aftur í tímann. Við þurfum eiginlega ekki frekari staðfestingar á vandamálinu en hér er hún hvað sem því líður,“ segir Martin Siegert, prófessor við Imperial College í London við BBC.
Loftslagslíkön benda til þess að hnattræn hlýnun gæti náð allt að 4-5°C fyrir lok þessarar aldar ef núverandi losun manna á gróðurhúsalofttegundum heldur áfram óheft. Varað er við að hlýnuninni fylgi verri hitabylgju, þurrkar, skógar- og gróðurelda og öfgakenndara veðurfar.