Erlent

Óttast um framtíð dýragarða

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Dýragarðar eru í vanda, víða um heim.
Dýragarðar eru í vanda, víða um heim. Getty/Peter Byrn

Stjórnendur breskra dýragarða hafa áhyggjur af því að garðarnir fari á hausinn vegna kórónuveirunnar. Engum gestum hefur verið hleypt inn undanfarna mánuði, með tilheyrandi tekjutapi.

Fíllinn sem sjá í meðfylgjandi myndbandi hefur trúlega litlar áhyggjur af fjárhagsstöðu heimilis síns, dýragarðsins í Colchester.

Alla jafna væri garðurinn troðfullur um þessar mundir. Nú fá þau fimmtán hundruð dýr sem búa í garðinum fáar heimsóknir. Hitta einungis þá fáu starfsmenn sem eru eftir.

Dýragarðurinn hefur, líkt og öðrum á Bretlandi og víðast hvar annars staðar, verið lokaður síðan kórónuveirufaraldurinn braust út. Kostnaðurinn við að halda uppi þessum fjölmörgu dýrum er auðvitað heilmikill. Sarah Forsyth, yfirmaður garðsins, er svartsýn á framtíðina.

„Nánast hver einasti dýragarður í Bretlandi er að velta því fyrir sér hvort að þeir eigi framtíðina fyrir sér eða ekki. Það er alveg ljóst að ef hjólin fara ekki að snúast bráðum muni margir dýragarðar þurfa að loka. Við treystum á að fólk komi að heimsækja okkur, það er það sem heldur okkur gangandi. Án gesta erum við í vandræðum,“ segir Forsyth.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×