Helena Sverrisdóttir, besti leikmaður Íslands- og bikarmeistara Vals, mun ekki leika með liðinu meira á þessu ári en hún er ólétt og á von á sér í desember. Er þetta annað barn hennar og Finns Atla Magnússonar, sem einnig leikur með Val.
Karfan.is greindi frá því í dag að hún stefndi þó að því að spila með Val eftir áramót og ná þannig síðustu leikjum Domino´s deildar kvenna sem og úrslitakeppninni.
Valskonur eru til alls líklegar á næsta tímabili en landsliðskonan Hildur Björg Kjartansdóttir gekk í raðir liðsins frá KR á dögunum.
Helena skoraði að meðaltali 16 stig, tók níu fráköst og gaf fimm stoðsendingar í leik á síðasta tímabili er Valur varði deildarmeistaratitilinn. Þær fengu þó ekki möguleikann á að verja Íslandsmeistaratitilinn þar sem deildin var blásin af vegna kórónufaraldursins.