Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var tilkynnt um umferðaróhapp við Holtagarða um klukkan 23 í gærkvöldi þar sem bíl hafði verið ekið utan í slökkvibíl.
Í dagbók lögreglu segir að ökumaðurinn sé grunaður um ölvun við akstur og hafi verið vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.
Allt tiltækt lið slökkviliðs á höfuðborgarsvæðinu hafði verið kallað út skömmu fyrr eftir að tilkynnt hafði verið um eld í bakaríi Jóa Fel í Holtagörðum. Öryggisvörður hafi hins vegar tekist að slökkva eldinn með handslökkvitæki, en hann hafði komið upp í loftræstikerfi.
Var um minniháttar eld að ræða, en slökkvilið kom á vettvang og tryggði vettvanginn og reykræsti.
Í dagbók lögreglu segir einnig frá því að um klukkan 23 hafi verið tilkynnt um þjófnað úr verslun við Fiskislóð á Granda.
Þá stöðvaði lögregla bíl á öðrum tímanum á Breiðholtsbraut þar sem ökumaður er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna sem og vörslu fíkniefna.