Í Seinni bylgjunni, þar sem Guðjón Valur Sigurðsson fór yfir landsliðsferilinn, rifjaði hann m.a. upp þegar slökkt var á íslenska þjóðsöngnum fyrir fyrsta leik Íslands á EM 2014 í Danmörku. Íslendingar unnu þá Norðmenn, 31-26.
„Þetta gaf svolítið tóninn þegar þeir slökktu á þjóðsöngnum og stúkan kláraði hann. Ég veit ekki hvert við ætluðum,“ sagði Guðjón Valur.
„Stuðningsmennirnir ætluðu að gera þetta áfram en í öðrum eða þriðja leiknum kveiktu þeir á einhverri teknótónlist til að yfirgnæfa íslensku áhorfendurna. Það fór svolítið í taugarnar á okkur,“ bætti Guðjón Valur við.
Evrópumótið 2014 var frábært bæði fyrir íslenska liðið og Guðjón Valur. Ísland endaði í 5. sæti mótsins og Guðjón Valur var næstmarkahæsti leikmaður þess.
„Þetta var gott mót. Við vorum massívir og mjög flottir,“ sagði Guðjón Valur sem er markahæsti leikmaður í sögu Evrópumótsins með 288 mörk.
Seinni bylgjan er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Olísdeildir karla og kvenna í handbolta og er á dagskrá öll mánudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.