Erlent

Segja faraldurinn í Íran mun verri en opinbert sé

Samúel Karl Ólason skrifar
Verið að sótthreinsa götur Tehran, höfuðborgar Íran.
Verið að sótthreinsa götur Tehran, höfuðborgar Íran. EPA/ABEDIN TAHERKENAREH

Allir skólar í Íran verða lokaðir til 20. mars til að sporna gegn útbreiðslu nýju kórónuveirunnar þar í landi. Heilbrigðisráðuneyti landsins tilkynnti í dag að 591 aðilar hefðu greinst með Covid-19, sjúkdóminn sem kórónuveiran veldur, á undanförnum sólarhring og fimmtán hafi dáið. Sérfræðingar segja mun faraldurinn mun verri en yfirvöld halda fram.

Sömuleiðis á að takmarka ferðalög almennings á milli borga landsins Heilbrigðisráðherra Íran hefur sömuleiðis biðlað til almennings að hætta að notast við reiðufé, þar sem það stuðli að útbreiðslu veirunnar í landinu. Þetta kom fram á blaðamannafundi í Íran í dag.

Yfirvöld í Íran hafa staðfest 3.513 smit í landinu og segja 107 hafa dáið. Sérfræðingar segja þó útlit um að útbreiðslan sé mun umfangsmeiri en það. Háttsettir embættismenn eru meðal þeirra sem hafa smitast af veirunni.

Sérfræðingar í samvinnu við Washington Post fóru yfir gögn frá sjúkrahúsum í Íran og áætla að minnst 28 þúsund manns hafi smitast þar í landi. Veirufræðingurinn Ashleigh Tuite, segist búast við því að ástandið muni versna enn frekar.

Samtöl blaðamanna við hjúkrunarfræðinga studdu áætlanir sérfræðinganna en þeir hjúkrunarfræðingar sem rætt var við segja tilfellum hafa fjölgað hratt og að þau séu fleiri en opinberar tölur segja til um.

Meðal annars sögðu hjúkrunarfræðingarnir embættismenn hafa í einhverjum tilfellum meinað heilbrigðisstarfsfólki að bera grímur, svo óðagot skapaðist ekki.

Íranar segja faraldurinn þar í landi hafa byrjað í borginni Qom eftir að viðskiptamaður smitaðist í Kína. Fyrstu tilfellin voru tilkynnt opinberlega þann 19. febrúar. Þingkosningar fóru fram tveimur dögum seinna.

Yfirvöld landsins hafa verið sökuð um slæm viðbrögð við útbreiðslu veirunnar en heilbrigðiskerfi landsins hafði þar að auki orðið fyrir höggi vegna viðskiptaþvingana og refsiaðgerða Bandaríkjanna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×