Innlent

Maður hand­tekinn eftir inn­brot í kirkju

Atli Ísleifsson skrifar
Leiða má líkur að því að um Grensáskirkju sé að ræða, þar sem ekki er að finna fleiri kirkjur í póstnúmeri 103.
Leiða má líkur að því að um Grensáskirkju sé að ræða, þar sem ekki er að finna fleiri kirkjur í póstnúmeri 103. vísir/vilhelm

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í nótt. Maður var handtekinn í kirkju í hverfi 103 á fimmta tímanum í nótt að því er fram kemur í dagbók lögreglu.

Er maðurinn grunaður um húsbrot og var hann vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu. Leiða má líkur að því að um Grensáskirkju sé að ræða, þar sem ekki er að finna fleiri kirkjur í póstnúmeri 103.

Skömmu fyrir klukkan 22 voru afskipti höfð af tveimur mönnum í hverfi 105 í Reykjavík þar sem þeir áttu í fíkniefnaviðskiptum. Voru þeir handteknir og vistaðir í fangageymslu en settir lausir að lokinni skýrslutöku. Einnig segir að kaupandinn sé sömuleiðis grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Um hálf fjögur var ung kona í annarlegu ástandi handtekin við skemmtistað í miðborginni. Var hún vistuð sökum ástands í fangageymslu.

Tilkynnt var um tvö umferðaróhöpp, bæði í hverfi 105, annars vegar skömmu fyrir klukkan þrjú og hins vegar rúmlega fjögur, þar sem tjónvaldar eru grunaðir um akstur undir áhrifum. Í öðru tilvikinu var maðurinn auk þess handtekinn fyrir vörslu fíkniefna og ofbeldi gegn opinberum starfsmanni, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.

Lögregla þurfti einnig að hafa afskipti af fjölda annarra ökumanna sem grunaðir eru um akstur undir áhrifum ýmist áfengis eða fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×