Tver menn voru skotnir í Stenhagen, vestur af Uppsölum, í gærkvöldi. Annar þeirra lést af sárum sínum og hinn er alvarlega særður en þó ekki í lífshættu að sögn sænska ríkisútvarpsins.
Mennirnir eru báðir á þrítugsaldri og fundust í blóði sínu í kyrrstæðum bíl úti á götu. Aftonbladet segir að um mikla kúlnahríð hafi verið að ræða. Rannsókn lögreglu er á frumstigi og hefur hún lítið viljað tjá sig um málið í morgun.
Mikil leit er nú gerð að ódæðismönnunum en enginn hefur þó verið handtekinn grunaður um árásina. Fram kemur í frétt sænska ríkisútvarpsins að búið sé að yfirheyra einstaklinga í tengslum við málið. Þá var tæknideild lögreglu að störfum þar í nótt.
Skotárás næturinnar er sett í samhengi við tvær aðrar árás sem framkvæmdar hafa verið í Uppsölum á síðustu dögum. Karlmaður var stunginn á mánudag og þá var skotið á íbúð á föstudag. Þrátt fyrir að lögreglan segist ekki vita hvort árásirnar tengist útilokar hún ekkert á þessari stundu.
Skotárás í Uppsölum
