Í Íslandi í dag á Stöð 2 í síðustu viku fékk Sindri Sindrason að kynnast starfinu í Stórmoskunni á Íslandi, hitti fólkið, krakka og fékk að sjá hvernig nám fer þar fram. Hann fékk einnig að kynnast matarmenningunni, félagsskapnum, hvaðan fólkið er og hvers vegna það leitaði hingað til lands.
Á vefsíðu Stórmoskunnar segir: „Við viljum vera sýnileg stofnun á Íslandi sem getur boðið upp á almenna menntun, tekið þátt í íslensku samfélagi með því að kynna arabíska og íslamska menningu með samskiptum milli þessara menningarheima.“
Moskan er staðsett við Skógarhlíð 20 í Reykjavík í fallegu húsi. Sindri mætti í húsið á laugardagseftirmiðdegi klukkan 5 á svæðið og þá var verið að kenna ungum börnum arabísku.
Sindri ræddi við börnin sem kunna vel við það að mæta í skólann á laugardegi og læra arabísku. Einnig var rætt við Karim Askari, framkvæmdarstjóra Stofnunar múslima á Íslandi, og fleiri. Til að mynda er greinilega mikil og góð matarmenning í húsinu og eru allir alltaf velkomnir eins og segir í innslaginu.
Hér að neðan má sjá innslagið í heild sinni.
Lífið