Söguþráður kvikmyndarinnar Ford v Ferrari er í grunninn um þetta, þó kastljósinu sé að mestu leyti beint að ökuþórnum Ken Miles, sem keyrði bíl Ford í keppninni. Það er Christian Bale sem leikur Miles en Matt Damon leikur Carroll Shelby, sem hannaði bílinn og fékk Miles til liðs við sig. Þó svo að auglýsingar bendi til að Bale og Damon deili sviðsljósinu til jafns er persóna Bales aðalpersóna myndarinnar út frá helstu fræðum í handritaskrifum, þar sem myndin er þroskasaga hans. Persóna Damons er örlítið fyrirferðarminni, við kynnumst honum til að mynda ekkert utan vinnunnar. Einnig er miklum tíma eytt í John Ford II (Tracy Letts) og skósveina hans í bílaverksmiðjunni og samskipti þeirra við eiganda Ferrari.
Leikararnir standa sig allir með prýði. Að öðrum ólöstuðum er Bale sá sem stendur upp úr og skapar hér enn og aftur mjög sértækan og eftirminnilegan karakter. Matt Damon er í klassískum Matt Damon gír og gerir það vel að vanda. Einnig var ég mjög hrifinn af Caitriona Balfe í hlutverki eiginkonu Miles og væri til í að sjá meira af henni í framtíðinni. Svo eru margir skemmtilegir leikarar í hlutverkum Ford jakkalakkanna. Josh Lucas er frábær sem drullusokkurinn Leo Beebe og Pulitzerverðlaunaða leikskáldið Tracy Letts fer vel með hlutverk John Ford II.

Þetta er vandamál sem skapaðist þegar Hollywood fór að setja nýjar myndir í mörg þúsund kvikmyndahús fyrstu sýningarhelgina. Áður en það gerðist lifðu kvikmyndir eða dóu út frá gæðum sínum. Ef mynd spurðist vel út þá kom fólk í bíó, annars sökk hún fljótt. Star Wars var t.a.m. aðeins gefin út í 32 kvikmyndahúsum í Bandaríkjunum fyrstu sýningarhelgina árið 1977, á meðan Last Jedi var frumsýnd í 4.232. Það gefur því auga leið að myndir þarf að fyrirframselja áður en þær koma út, annars er fjárhagstapið gífurlegt.
Þetta ýtti Hollywood út í að gera meira af því sem kallast high concept myndir. Myndir sem er hægt að selja í einni setningu. Það er því auglóslega erfiðara að koma núönsuðum myndum á koppinn ef þarf að vera hægt að selja þær auðveldlega í einni setningu. Ég giska á að handritshöfundar sem sýna einstaka færni í að skrifa safaríkar og margslungnar kvikmyndir séu ekki jafn mikið að velta sér upp úr því að hægt sé að selja þær í einni setningu. Því sitjum við mjög oft uppi með að þessar svokölluðu high concept myndir eru í mjög lágum gæðaflokki.
Ég fagna því komu Ford v Ferrari og vona að fleiri gæðamynda sé að vænta.
Ef þessu hefði verið sinnt betur hefði það lyft myndinni upp í að vera frábær en þess í stað lendir hún í því mjög góð flokknum. Það er að sjálfsögðu engin skömm af því en það hryggir mig samt að hún hafi ekki náð að verða allt sem hún gat orðið.
Sagan étur að einhverju leyti persónurnar, það er í raun verið að fjalla um aðeins of margt til að gera algjörlega fullnægjandi kvikmynd. Það er heldur algengt þessa dagana að fjallað sé um svo margt í einni mynd að engum anga hennar er gerð fyllileg skil. Ford v Ferrari er hinsvegar mjög vel smíðuð út frá framvindu sögunnar og hvernig hún skapar samlíðan með persónum. Það skilar sér í meira en viðunandi kvikmynd sem óhætt er að mæla með.
Niðurstaða
Fjórar stjörnur. Það er enginn með skikkju í þessari mynd og hún er vel úr garði gerð að flestu leyti. Ég hefði þó viljað sjá aðeins betur nostrað við persónusköpun. Í heildina er þetta góð mynd fyrir fullorðið fólk, maður fúlsar ekki við því á þessum síðustu og verstu.Fjallað var um myndina í nýjasta þætti Stjörnubíós, hægt er að hlýða á það hér: