Dómstóll í Bangladess hefur dæmt sjö íslamista til dauða vegna árásar á kaffihús í höfuðborginni Dhaka árið 2016. Alls fórust 22 í árásinni, aðallega erlendir ferðamenn.
Hópur fimm manna tók gesti Holey Artisan kaffihússins í gíslingu og ríkti umsátursástand í um tólf klukkustundir. Er þetta mannskæðasta hryðjuverkaárásin í sögu Bangladess, en flest fórnarlambanna voru í Ítalir og Japanir. Alls voru átta manns ákærðir í málinu og var einn þeirra sýknaður.
ISIS lýsti yfir ábyrgð á árásinni, en yfirvöld í Bangladess drógu þær fullyrðingar í efa og sökuðu bangladesskan uppreisnarhóp um ódæðið, Jamaat-ul-Mujahideen Bangladesh (JMB).
Yfirvöld í landinu hafa gripið til mikillar herferðar gegn uppreisnarhópum í landinu.
Saksóknari í málinu segir að það væri hafið yfir allan vafa að hinir ákærðu væru sekir.
Sjö dæmdir til dauða fyrir ódæðið í Dhaka 2016
Atli Ísleifsson skrifar
