Faðir Helgu, Henrik Sv. Björnsson starfaði innan utanríkisþjónustunnar og flutti fjölskyldan til Lundúna þegar Helga var 13 ára gömul. Fimm árum síðar fluttist fjölskyldan til Parísar. Þar bjó Helga til ársins 2011. Tískubransinn kallaði í höfuðborg tískunnar en Helga hafði ekki áhuga á að gerast fyrirsæta, þrátt fyrir að það hafi staðið til boða.
„Það var bara ekki mitt. Mér fannst skemmtilegra að vera á bak við að hanna. Ég hafði mikinn áhuga á tísku og sköpun og ég er svo heppin að kynnast Louis Feraud af algjörri tilviljun þegar ég er að klára skólann,“ segir Helga.
Helga hóf störf hjá Feraud sem lærlingur og vann í fyrstu launalaust í sex mánuði. Feraud var heimsfrægur hönnuður og segir Helga að margt eftirminnilegt hafi gerst á árum hennar með Feraud, jafnvel þó að á þeim tíma hafi henni þótt það eðlilegt.

Það voru þó ekki bara fyrirsæturnar sem klæddust fatnaði Helgu og Louis Feraud því Díana prinsessa klæddist reglulega fatnaðinum og virtist líka vel.
Ferill Helgu náði því miklum hæðum í París en hún segist aldrei hafa þurft að fórna ástinni til að ná frekari frama en hún hafi frekar valið að halda áfram vinnunni og sköpuninni en að festa sig í hjónaband.
Þá segir Helga að á árum hennar í París hafi hún alltaf haldið fast í Íslendinginn. Þegar til Íslands var komið hafi hún þó meira fundið fyrir þeim áhrifum sem París hafði haft á hana.
Helga hefur undanfarið hannað fyrir sig sjálfa auk þess að hún hefur hannað fyrir sýningar í Þjóðleikhúsinu. Þá er fyrirhuguð sýning verka eftir Helgu á kaffihúsi dóttur hennar, Gígju Björnsson, sem rekur Kattakaffihúsið í miðbænum.

Allir kettirnir eru geldir og ormahreinsaðir og koma flestir frá einstaklingum sem ekki gátu átt þá lengi og eru þeir allir að leita að nýju heimili. „Þegar maður elskar ketti vill maður gefa öllum kisum heimili,“ segir Gígja Björnsson.