„Drottningin hefur lítinn tíma út af fyrir sig og hefur ekki tíma til að ganga til nýja skó, við notum sömu skóstærð og því passar best að gera þetta svona,“ skrifar Kelly um þetta einstaka hlutverk sitt. Kelly sér um að velja föt, skó og skartgripi fyrir drottninguna og hefur unnið við það frá árinu 2002.
Tímaritið Hello birtir nokkur sniðug leyndarmál sem Kelly afhjúpar í bókinni. Samkvæmt frétt á vef BBC skrifar Kelly meðal annars um atriðið sem drottningin lék í ásamt leikaranum Daniel Craig fyrir ólympíuleikana árið 2012. Þurfti drottningin aðeins að hugsa sig um í fimm mínútur áður en hún sagði já.
„Innan nokkurra mínúta var ég að segja leikstjóranum góðu fréttirnar, ég held að hann hafi næstum því dottið úr stólnum sínum þegar ég sagði að eina skilyrði drottningarinnar væri að hún fengi að segja frægu línuna „Góða kvöldið herra Bond.““
„Ég hitti eiganda Paddy Power og við ákváðum að lokað yrði fyrir veðmál um litinn á hatti drottningar á ákveðnum tíma til þess að koma í veg fyrir svindl.“

Kelly uppljóstraði því hvernig Yorkshire te var notað til þess að líkja eftir litnum á skírnakjól konungsfjölskyldunnar. Á síðasta ári var gerð eftirlíking af skírnarkjól sem hafði verið notaður innan fjölskyldunnar í meira en tíu ár. Til þess að hafa eftirlíkinguna sem nákvæmasta var notað sterkasta teið sem völ var á.
„Við settum hvert blúndustykki í litla skál úr eldhúsinu, fyllta með köldu vatni og tepoka og létum liggja í bleyti í um fimm mínútur, en kíktum reglulega á þetta þangað til liturinn varð fullkominn.“
Bókin kemur ekki út fyrr en á morgun en er strax komin á metsölulista Amazon vegna forpantana.