Innlent

Játaði árásina á Götubarnum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fórnarlambið kærði árásina til lögreglunnar á Norðurlandi eystra.
Fórnarlambið kærði árásina til lögreglunnar á Norðurlandi eystra. Vísir/Vilhelm
21 árs karlmaður hefur verið dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás á Götubarnum í miðbæ Akureyrar. Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Norðurlands eystra í dag en árásin átti sér stað aðfaranótt föstudagsins 2. febrúar 2018.

Maðurinn játaði að hafa slegið karlmann, tveimur árum eldri, með krepptum hnefa í andlit þannig að sá féll í gólfið.

Hann játaði sömuleiðis að hafa sparkað í andlit hans þar sem hann lá á gólfinu með þeim afleiðingum að sá hlaut skurð á nefi, blóðnasir, sár á enni og hægri kinn, brot á framhlið efri framtannar auk fleiri eymsla í kjálka, enni og í kringum hægri augntóft.

Ákærði féllst á kröfu fórnarlambsins um 75 þúsund króna greiðslu fyrir útlagðan kostnað vegnar árásarinnar. 

Dómurinn tók tillit til þess að maðurinn iðraðist gjörða sinna, samþykkti bótagreiðslu og taldi fjögurra mánaða skilorðsbundinn dóm hæfilega refsingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×