Innlent

Stöðvuðu öku­mann og komu upp um um­fangs­mikla kanna­bis­ræktun

Sylvía Hall skrifar
Á heimili mannsins fundust 525 kannabisplöntur. Myndin er úr safni.
Á heimili mannsins fundust 525 kannabisplöntur. Myndin er úr safni. Fréttablaðið/Stefán
Lögreglan á Suðurlandi stöðvaði í gær ökumann fólksbifreiðar í því skyni að kanna ástand hans og ökuréttindi. Þegar maðurinn var stöðvaður fundu lögreglumenn mikla kannabislykt af ökumanninum og játaði hann að vera undir áhrifum kannabisefna.

Í kjölfarið fóru lögreglumenn með manninn að heimili hans og mætti þeim kannabislykt enn og aftur. Maðurinn gaf lögreglumönnum leyfi fyrir húsleit og framvísaði nokkru magni af kannabisefnum.

Við frekari leit á heimili mannsins fundu lögreglumenn kannabisræktun í kjallara hússins, nánar tiltekið 525 kannabisplöntur á mismunandi ræktunarstigum og var aðstaðan til ræktunarinnar vel útbúin. Þá kom jafnframt í ljós að rafmagn hafði verið leitt fram hjá rafmagnsmæli.

Samkvæmt færslu lögreglunnar á Suðurlandi telst málið upplýst og á maðurinn von á ákæru fyrir akstur undir áhrifum ólöglegra ávana- og fíkniefna, vörslu fíkniefna, framleiðslu kannabisefna, rof á innsigli rafmagnsmælis og þjófnaði á orku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×