Gianni Infantino, forseti FIFA, sagði að hann hafi rætt málið við yfirvöld í Tehran eftir að fótboltaaðdáandi framdi sjálfsvíg fyrr í mánuðinum. Hann sagði að yfirvöld hafi samþykkt að konur fengju inn á leiki.
Konum hefur verið meinaður aðgangur að fótboltaleikjum frá því að íslamska byltingin varð árið 1979.
Fyrr í mánuðinum dó fótboltaáhugakonan Sahar Khodayari eftir að hún var handtekin fyrir að hafa farið á leik í dulargervi karlmanns.

Andlát hennar varð mörgum mikið áfall og vakti fólk til umhugsunar, bæði innan og utan Íran.
Fótboltamenn um allan heim hafa minnst Khodayari og hafa til að mynda nokkur evrópsk kvennalið borið blá armbönd á meðan á leikjum hefur staðið til minningar um hana.
Mikilvægt að konur séu á leikjum
FIFA hefur orðið fyrir miklu aðkasti og hefur hópur fólks krafið sambandið um að setja íranska fótboltasambandið í leikbann.Starfsmenn FIFA hafa varið vikunni í Íran og rætt landsleik Íran á móti Kambódíu sem fer fram 10. október næst komandi sem verður fyrsti heimaleikur íranska liðsins í undankeppninni fyrir Heimsmeistaramótið 2022.
„Við þurfum að hafa konur á leiknum,“ sagði Infantino á ráðstefnu FIFA um kvennafótbolta.
„Við höfum fengið loforð um það að konur fái að vera á næsta alþjóðlega fótboltaleik Íran. Þetta er gríðarlega mikilvægt en konur hafa ekki verið á leikjum hér í fjörutíu ár, fyrir utan nokkrar undantekningar,“ bætti hann við.
Þrátt fyrir að íranskar konur hafi ekki fengið að horfa á karlalið spila hafa erlendar konur haft takmarkaðan aðgang að leikvöngum til að horfa á leikina.
Bannið er ekki lögbundið en því hefur verið fylgt eftir með hörku segja samtök mannréttindavaktarinnar (e. Human Rights Watch).
Banninu var lyft tímabundið í fyrra til þess að konur gætu horft á útsendingu heimsmeistaramótsins á leikvangi í Tehran.