Danski vindmylluframleiðandinn Vestas sagði í morgun upp 590 starfsmönnum í Danmörku og Þýskalandi.
Í tilkynningu frá Vestas segir að níutíu manns hafi misst vinnuna í verksmiðju fyrirtækisins í Lem við Ringkjøbing en 500 í verksmiðjunni í Lauchhammer, suður af þýsku höfuðborginni Berlín.
Niðurskurðinn má rekja til þess þess að kúnnar séu í auknum mæli að leitast eftir öðrum tegundum af vindmylluspöðum en áður. Því muni framleiðslan fara fram í öðrum verksmiðjum í álfunni.
Í frétt DR segir að um 12 prósent starfsmanna í verksmiðju Vestas í Lem hafi verið látin fara, en um helmingur í verksmiðjunni í Lauchhammer. Alls starfa 24.500 manns hjá fyrirsækinu, víðs vegar um heim.
Tilkynning fyrirtæksins kemur degi eftir að helsti samkeppnisaðilinn, Siemens Gamesa, tilkynnti um uppsagnir á sex hundruð manns í verksmiðjum fyrirtækisins í Álaborg og Brande.
Vindmylluframleiðandinn Vestas segir upp 590 manns
