Skoðun

Menntun svarar stafrænu byltingunni

Lilja Alfreðsdóttir skrifar
Stafræna byltingin hefur áhrif á daglegt líf okkar allra. Miklu af þeirri þjónustu sem við áður sóttum til fyrirtækja eða opinberra aðila sinnum við nú sjálf í gegnum snjallsíma. Sjálfvirknivæðingin, sýndarveruleikinn og gervigreindin eru komin til að vera og eru að umbylta landslagi menntunar og vinnumarkaðar. Í gegnum tíðina hafa falist mörg tækifæri fyrir Ísland í tæknibyltingum. Við höfum séð vinnumarkaðinn gjörbreytast á stuttum tíma og menntun verður að mæta þessum nýju og spennandi tímum.

Meðal mikilvægustu verkfæra unga fólksins okkar, sem móta munu framtíð samfélagsins, eru samvinnuhæfni, frumkvæði, skapandi hugsun og það að geta unnið með upplýsingar og tækni á fjölbreyttan hátt. Fjórða iðnbyltingin krefur okkur með sínum öru samfélags- og tæknibreytingum um nýja nálgun á ýmis kerfi, þar með talið menntun og starfsþjálfun af öllu tagi. Sem dæmi um gott viðbragð við breyttum tímum er nýtt nám sem hófst við Verzlunarskóla Íslands nú í haust. Það ber yfirskriftina „Stafræn viðskiptalína“ og er skipulagt í góðu samstarfi við atvinnulífið, meðal annars í gegnum SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu. Markmið námsins er að mæta nýjum þörfum atvinnulífsins en sérstaða námsins er meðal annars fólgin í áföngum sem tengjast stafrænum lausnum, greiningu á gögnum og notagildi samfélagsmiðla. Þá fer hluti námsins fram í starfsnámi sem útfært verður í samstarfi við ýmis fyrirtæki. Þegar ég heimsótti nemendur á þessari nýju braut í vikunni spurði ég þá af hverju þetta nám hefði orðið fyrir valinu. Svörin voru margvísleg en eitt stóð upp úr: „Við vitum hversu mikilvægt það er að við höfum góðan skilning á forritun, bæði til að skilja samfélagið og hvað bíður okkar.“

Ég fagna nýjungum í menntun á Íslandi og sérstaklega þeim sem miða að því að mæta þörfum framtíðarinnar og efla tengsl menntakerfisins við samfélagið. Ég óska Verzlunarskólanum og Samtökum verslunar og þjónustu til hamingju með þennan áfanga og nýja námið.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.




Skoðun

Sjá meira


×