Erlent

Sjö handteknir vegna dauða tónleikagesta

Birgir Olgeirsson skrifar
Um 200 gestir særðust þegar skelfing greip um sig eftir að mennirnir höfðu beitt piparúða á staðnum.
Um 200 gestir særðust þegar skelfing greip um sig eftir að mennirnir höfðu beitt piparúða á staðnum. Vísir/Getty
Lögreglan á Ítalíu hefur handtekið sjö unga menn sem eru grunaðir um að bera ábyrgð á þeirri ringulreið sem skapaðist á skemmtistað í fyrra sem varð þess valdandi að sex létust. Sex þeirra sem eru í haldi lögreglunnar eru grunaðir um manndráp.

Mennirnir eru á aldrinum 19 til 22 ára en þeir eru sakaðir um að valda ofsahræðslu á meðal gesta með því að nota piparúða í þeim tilgangi að ræna gestina.

Fimm þeirra sem létust voru á aldrinum 14 til 16 ára. Sjötta fórnarlambið var 39 ára gömul kona sem var á staðnum með dóttur sinni.

Fréttastofa breska ríkisútvarpsins BBC greinir frá því að lögreglan telji mennina tilheyra glæpasamtökum sem starfa á Ítalíu.

Um 1.400 manns voru saman komin á Blue Lantern Club í Corinaldo til að hlusta á rapparann Sfera Ebbasta áttunda desember í fyrra. Klúbburinn er þó aðeins með leyfi fyrir 900 gesti. Um 200 gestir særðust þegar skelfing greip um sig eftir að mennirnir höfðu beitt piparúða á staðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×