Bastilludagurinn, þjóðhátíðardagur Frakka, var haldinn hátíðlegur í gær og var öllu tjaldað til á hersýningu á Champs-Élyssées.
Það nýjasta í varnarmálum Evrópu var sýnt þegar yfir 4.000 hermenn, 69 flugvélar og 39 þyrlur voru samankomin á breiðgötunni. Emmanuel Macron Frakklandsforseti var viðstaddur sýninguna ásamt Angelu Merkel, kanslara Þýskalands.
Senunni stal Frank Zapata, fyrrverandi hermaður og afreksmaður á sæþotu sem sýndi nýjustu uppfinningu sína „Flyboard“ er hann flaug á svifbretti yfir hausamótunum á fólki með riffil í hönd.
Brettið sem var upphaflega hannað til að svífa yfir vatni kemst á allt að 190 km hraða á klukkustund. og getur flogið í 10 mínútur í senn.
Eftir að hersýningunni lauk og opnað var fyrir umferð aftur á breiðgötunni brutust úr mótmæli þegar um 200 manns í gulum vestum reyndu að loka götunni. Óeirðalögregla beitti táragasi til að leysa upp mótmælin þegar til átaka kom. Kveiktu mótmælendur, sem kenna sig við gulu vestin, elda í tunnum og á almenningsklósettum en frönsk yfirvöld höfðu bannað öll mótmæli á þjóðhátíðardaginn.