Hæstiréttur New Jersey-ríkis í Bandaríkjunum ætlar að láta alla dómara í ríkinu gangast undir nýja þjálfun eftir að nokkrir þeirra höfðu uppi óviðeigandi ummæli í kynferðisbrotamálum. Dómari sem taldi að sýna ætti unglingsdreng sem var ákærður fyrir nauðgun vægð í fyrra vegna þess að hann kæmi úr góðri fjölskyldu hefur sagt af sér.
Athygli vakti þegar James Troiano, dómari í Monmouth-sýslu, sagði einnig að saksóknarar hefðu átt að gera jafnöldru piltsins grein fyrir því að hún gæti eyðilagt lífs hans með því að kæra hann fyrir nauðgun. Pilturinn var einnig sakaður um að hafa tekið upp myndband af nauðguninni.
New York Times segir að Troiano hafi nú sagt af sér. Stjórnmálamenn í New Jersey höfðu krafist afsagnar hans eftir að ummæli hans voru gerð opinber fyrr í þessum mánuði og mótmæli höfðu verið haldin fyrir utan dómshúsið.
Nú stendur til að bæta þjálfun dómara í málum þar sem kynferðisbrot, heimilisofbeldi, hlutdrægni og fjölbreytileiki koma við sögu. Markmiðið er að dómararnir geti komið niðurstöðum sínum til skila á hátt sem sé í samræmi við lög, sýni fórnarlömbum virðingu, verji rétt sakborninga og sé skiljanlegur almenningi.
Þá tilkynnti hæstirétturinn að hann ætli að hefja skoðun á því hvort að annar dómari verði rekinn. Sá spurði konu hvort hún hefði þrýst lærunum saman til að koma í veg fyrir kynferðisárás.
Dómarinn sem vildi sýna meintum nauðgara vægð vegna fjölskyldu hans segir af sér

Tengdar fréttir

Dómari segir meintan nauðgara eiga skilið vægð því hann kemur úr góðri fjölskyldu
Drengnum er gefið að sök að hafa nauðgað stúlkunni, tekið verknaðinn upp á myndband og deilt með vinum sínum.