Erlent

Sak­sóknarar hóta upp­reisn í Minneapolis

Samúel Karl Ólason skrifar
Fjöldi fólks kom saman í Minneapolis í gær til að minnast Alex Pretti.
Fjöldi fólks kom saman í Minneapolis í gær til að minnast Alex Pretti. AP/Adam Gray

Alríkissaksóknarar í Minneapolis í Bandaríkjunum hafa hótað því að hætta í massavís. Er það vegna þess hvernig haldið hefur verið á spöðunum varðandi rannsóknir á dauða þeirra Renée Good og Alex Pretti, sem skotin voru til bana af útsendurum heimavarnaráðuneytis Bandaríkjanna.

Margir saksóknarar eru sagðir hafa sagt Daniel Rosen, ríkissaksóknara sem skipaður var af Donald Trump, á fundi í vikunni að þeir væru líklegir til að hætta og að minnsta kosti einn hefur þegar hætt, samkvæmt heimildum Washington Post.

Good og Pretti voru skotin með rúmlega tveggja vikna millibili en þau atvik hafa leitt til mikillar reiði. Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur staðið í vegi þess að löggæsluembætti og saksóknarar í Minnesota hafi getað rannsakað banaskotin, sem eru bæði mjög svo umdeild. Yfirvöld í Minnesota vita til að mynda ekki hvað mennirnir tveir sem skutu Pretti til bana heita en þeir voru fljótt fluttir úr ríkinu.

Þó nokkrir alríkissaksóknarar hættu fyrr í mánuðinum, eftir að embættismenn úr ráðuneytinu sögðu þeim að skoða ekki banaskot Good, heldur reyna frekar að byggja mál gegn maka hennar.

Eftir þær uppsagnir voru aðrir saksóknarar úr öðrum ríkjum sendir til Minnesota til að aðstoða saksóknarana sem eftir voru þar en gífurlega mikið álag hefur verið á þeim vegna aðgerða heimvarnaráðuneytisins og útsendara stofnana þess í ríkinu.

Um sjötíu alríkissaksóknarar eiga að starfa fyrir ríkissaksóknarann en svo margir hafa hætt á undanförnum mánuðum að um helmingur starfanna eru ófyllt, samkvæmt frétt WP.

Rannsaka kollega sína en fá ekki sönnunargögn

Við hefðbundnar kringumstæður koma útsendarar Alríkislögreglu Bandaríkjanna (FBI) og saksóknarar að rannsókn á því þegar alríkisútsendarar skjóta borgara til bana. Það er þá rannsakað sem mögulegt brot á borgaralegum réttindum þess sem var skotinn.

Eftir að Good var skotin hófst slík rannsókn innan FBI en blaðamenn vestanhafs segja að hún hafi verið stöðvuð fljótt. Þess í stað stóð til að reyna að ákæra maka hennar.

Staðan virðist svipuð þegar kemur að banaskoti Pretti. Þar hafa útsendarar heimavarnaráðuneytisins fengið það hlutverk að rannsaka kollega sína. CNN sagði frá því í gær að þeir hefðu takmarkaðan aðgang að upplýsingum og sönnunargögnum sem búið væri að afla.

Trump hefur þó talað fyrir því að hann vilji ítarlega rannsókn á dauða Pretti.

„Ég vil sjá þessa rannsókn. Ég mun fylgjast með henni og vil að hún verði virðingarfull og heiðarleg. Ég verð að sjá hana sjálfur,“ sagði Trump í dag.

Foreldrar Pretti hafa ráðið fyrrverandi alríkissaksóknara sem kom að því að lögsækja lögregluþjónana sem myrtu George Floyd um árið. Sá er mjög reynslumikill en AP hefur eftir talsmanni fjölskyldunnar að hann hafi boðist til að vinna launalaust fyrir þau.


Tengdar fréttir

Maður sprautaði illa lyktandi vökva á Ilhan Omar

Maður réðist að þingkonunni Ilhan Omar á íbúafundi í Minneapolis í gærkvöldi og sprautaði á hana óþekktu og illa lyktandi efni. Maðurinn var yfirbugaður af öryggisvörðum og Omar hélt áfram með ræðu sína.

Róa á nýnasistamið í leit að ICE-liðum

Innflytjenda- og tollaeftirlit Bandaríkjanna, eða ICE, hefur verið mikið á milli tannanna á fólki undanfarna daga. Það er sérstaklega vegna ástandsins í Minnesota, þar sem þúsundir útsendara ICE og annarra stofnana heimavarnaráðuneytis Bandaríkjanna hafa vakið mikla athygli að undanförnu og skotið tvo íbúa til bana.

Bovino sendur til Kaliforníu og Leavitt dregur í land

Svo virðist sem gríðarleg reiði og hörð gagnrýni vegna framgöngu innflytjendayfirvalda í Minneapolis sé farin að hafa áhrif á stjórnvöld vestanhafs en erlendir miðlar greina frá því að ákvörðun hafi verið tekin um að láta Greg Bovino, sem farið hefur fyrir aðgerðum í borginni, snúa aftur til fyrri starfa í Kaliforníu.

Trump sagður hafa lofað óháðum rannsóknum í Minnesota

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er að senda Tom Homan, svokallaðan „landamærakeisara“ sinn, til Minnesota. Þar á hann að ræða við Tim Walz, ríkisstjóra, og aðra embættismenn um ástandið þar og aðgerðir alríkisútsendara. Gífurlega spenna er í ríkinu eftir að útsendarar þessir skutu aðra manneskju til bana um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×