Erlent

Reyndi að frelsa Mangione vopnaður pítsaskera

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Lugi Mangione dvelur í fangelsi í New York.
Lugi Mangione dvelur í fangelsi í New York. Getty

Karlmaður hefur verið handtekinn fyrir að þykjast vera fulltrúi bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) til að frelsa Luigi Mangione úr haldi. Maðurinn var með pítsaskera í fórum sínum.

Mark Anderson gekk inn í fangelsi í Brooklyn á miðvikudagskvöld og þóttist vera lögreglumaður hjá alríkislögreglunni. Hann sagðist vera með dómskjöl sem sögðu til um að leysa ætti Luigi Mangione úr haldi. Aðspurður um skilríki gaf hann upp ökuskírteini sitt frá Minnesota.

Anderson sagðist síðan vera vopnaður og hóf að henda skjölum í fangaverðina. Á honum fannst pítsakeri og grillgaffall. Hann er starfsmaður á pítsastað í New York-borg. Hann hefur verið ákærður fyrir að þykjast vera FBI-fulltrúi og á að mæta fyrir dómara á fimmtudag.

Heimildir New York Times herma að Anderson hafi verið að reyna frelsa Mangione úr fangelsinu.

Bréf, bækur og peningar

Þann 4. desember 2024 var Brian Thompson, forstjóri UnitedHealthcare, eins stærsta sjúkratryggingafyrirtækis Bandaríkjanna, skotinn til bana fyrir utan hótel á Manhattan. Eftir umfangsmikla leit var Mangione, sem er í dag 27 ára gamall, handtekinn og er hann grunaður um morðið.

Sjá nánar: Forstjóri UnitedHealthcare myrtur

Hann var ákærður af alríkissaksóknurum fyrir manndráp og fyrir að nota ólöglegan hljóðdeyfi þegar hann skaut Thompson. Héraðssaksóknari í New York ákærði Mangione einnig fyrir manndráp og hryðjuverk en hryðjuverkaákærunum var síðar vísað frá.

Enn liggur ekki fyrir hvenær réttarhöld hefjast en Pam Bondi, ríkissaksóknari Bandaríkjanna, hefur sagt að farið verði fram á dauðarefsingu.

Mál Mangione vakti gríðarlega athygli og er mikill fjöldi fólks sem hefur sýnt honum stuðning með að styrkja hann fjárhagslega og sent honum bréf, bækur og ljósmyndir. Þá hefur leikhús í San Francisco sett upp söngleik byggðan á sögu hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×