Innlent

Mikið elskaður risastór páfagaukur týndur í miðbæ Reykjavíkur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mímí er týndur og eigandi hans vill fá hann heim.
Mímí er týndur og eigandi hans vill fá hann heim. Vísir
Páfagaukurinn Mímí er einhvers staðar á sveimi í miðbæ Reykjavíkur. Eigandi gauksins saknar hans mjög og eru miklar vonir bundnar við að hann finnist og skili sér heim. Þetta segir tónlistarmaðurinn og leikarinn Valdimar Örn Flygenring í samtali við Vísi.

Valdimar hringdi fyrir hönd vinar síns sem er eigandi gauksins. Fuglinn er algrænn og risastór, á mælikvarða páfagauka.

„Það átti að fara með hann til læknis í skoðun. Hann komst út úr risastóru búrinu sínu, slapp út og hann hvarf,“ segir Valdimar. Sólin skíni og eðlilega spennandi hjá gauknum að kíkja á umhverfi sitt. Það geti hins vegar reynst hættulegt.

„Hann gæti hafa flogið niður á tjörn, inn í skóg eða annað eins og þeir gera þessir gaurar. Hann er mikið elskaður þessi gaukur en hann hefur greinilega viljað kíkja á stelpurnar. En það er bara engin stelpa fyrir hann.“

Verði einhver páfagauksins var biður Valdimar viðkomandi um að slá á þráðinn í síma 899-1959.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×