Erlent

Vill loforð um enga seinkun

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Boris Johnson.
Boris Johnson. Nordicphotos/AFP
Boris Johnson, sigurstranglegasti frambjóðandinn í leiðtogakjöri Íhaldsflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra Breta, skoraði í gær á Jeremy Hunt, andstæðinginn í leiðtogakjörinu og núverandi utanríkisráðherra, að lofa bresku þjóðinni því að gengið verði út úr ESB þann 31. október eins og til stendur.

Útgöngu hefur áður verið frestað og Hunt sagt dagsetninguna sjálfa merkingarlausa. „Fyrir mitt leyti hef ég verið alveg skýr. Ef ég verð leiðtogi göngum við út 31. október. Með eða án samnings,“ sagði Johnson.

Sá sem ber sigur úr býtum í leiðtogakjöri Íhaldsmanna verður einnig forsætisráðherra Bretlands og tekur þannig við af Theresu May. Stærsta verkefnið, og ástæða leiðtogakjörsins, er útgöngumálið. Þar er komin upp erfið pattstaða. Breska þingið hefur í þrígang hafnað útgöngusamningnum sem May-stjórnin gerði við ESB sem og reyndar öllum öðrum möguleikum.

Hunt sagði í gær að næsti forsætis­ráðherra þyrfti að vera áreiðanlegur og trúverðugur. Persónuleikinn skipti máli í viðræðunum við ESB. Ekki þarf að lesa djúpt á milli línanna til að sjá að þar skaut hann á hinn litríka Johnson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×