Sport

Guðlaug Edda keppir við þær allra bestu í heiminum um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðlaug Edda Hannesdóttir.
Guðlaug Edda Hannesdóttir. Mynd/Fésbókarsíða Edda
Íslenska þríþrautakonan Guðlaug Edda Hannesdóttir keppir í sprettþraut í World Triathlon Series um helgina.

Keppnin fer fram í Montreal í Kanada en WTS (World Triathlon Series) er stærsta þríþrautarmótasería í heimi sem keppt er í Ólympískri þríþraut en þar keppa þær allra bestu í heiminum.

Guðlaug Edda hefur sett sér það markmið að vinna sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum í Tókýó á næsta ári en engin íslensk kona hefur keppt áður í þríþraut á leikunum.

Guðlaug Edda stóð sig frábærlega á EM í Ólympíuþraut í lok maí en hún náði þar fjórtánda sæti í keppninni.

Þetta er í annað sinn sem Guðlaug Edda keppir í þessari WTS-mótaseríu en fyrsta skiptið endaði ekki vel. Það var í Leeds í fyrra sem endaði með slysi og heilahristing. Vonandi tekst okkar konu að klára þrautina á morgun.

Aðstæður verða erfiðar því það er 30 stiga hiti í Montreal og mikill raki. Veðurspáin fyrir helgina er svipuð. Á laugardag er spáð rigningu en eins og á Íslandi þá er veðrið og veðurspáin fljót að breytast.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×