Erlent

May greinir frá starfslokum sínum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Von er á yfirlýsingu frá Theresu May nú á níunda tímanum.
Von er á yfirlýsingu frá Theresu May nú á níunda tímanum. EPA/NEIL HALL
Búist er við því að Theresa May, forsætisráðherra Breta, tilkynni samstarfsmönnum sínum um hvenær hún ætli sér að láta af embætti forsætisráðherra.

Samkvæmt heimildarmönnum Sky mun May funda með formanni flokksráðs Íhaldsflokksins, hinni svokölluðu 1922-nefnd, núna klukkan átta. Að þeim fundi loknum er búist við yfirlýsingu frá forsætisráðherranum.

Fréttaskýrendur telja líklegt að þann 10. júní hefjist formlega kosningabarátta um nýjan leiðtoga Íhaldsflokksins, og um leið forsætisráðherra. May hefur verið undir þrýstingi um að segja af sér, ekki síst síðustu daga eftir að hennar eigin þingmenn tóku afar dræmt í nýjustu útfærslu hennar á útgöngusamningnum við Evrópusambandið.

Þingmenn hafa nú hafnað útfærslum hennar þrívegis og ljóst þykir að það muni þeir einnig gera með fjórðu útgáfuna. Til stóð að hún yrði kynnt í dag en dráttur verður á því, ekki síst vegna þess hve illa tekið var í málið af samherjum hennar og ráðherrum í ríkisstjórninni.

Líklegasti eftirmaður May er talinn vera Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra og áður borgarstjóri Lundúna.


Tengdar fréttir

May stendur höllum fæti eftir að síðasta útspil hennar klikkar

May virðist hafa mistekist að afla stuðnings á þingi við fjórðu atkvæðagreiðsluna um samkomulag hennar við forsvarsmenn Evrópusambandsins um úrgöngu Bretlands úr sambandinu. Hvorki meðal stjórnarandstöðunnar né eigin þingmanna í Íhaldsflokknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×