Innlent

Verða að kanna notkun piparúða á mótmælendur

Baldur Guðmundsson skrifar
Sema Erla Serdar
Sema Erla Serdar FBL/Eyþór
Nefnd um eftirlit með lögreglu hefur sent erindi Semu Erlu Serdar, fyrir hönd Solaris – hjálparsamtaka fyrir hælisleitur og flóttafólk á Íslandi, til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til meðferðar. Tilefnið erindisins var framganga lögreglu sem beitti piparúða á mótmælendur sem voru saman komnir á Austurvelli 11. mars.

„Það var ekki fyrr en lögreglan stillti sér upp og fór að ýta við mótmælendahópnum að til ryskinga kom, sem endaði með því að lögreglan beitti piparúða á mótmælendurna,“ segir Sema. Hún segist hafa óskað eftir því við nefndina að framferði lögreglu yrði skoðað. Hún bað um svör við spurningum um verklagsreglur um notkun á piparúða og hvort lögreglu beri að útvega þeim aðstoð sem fyrir honum verði.

Nefndin ákvað að taka erindið ekki til meðferðar heldur vísaði málinu til meðferðar hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu.

„Samkvæmt lögum ber lögreglustjóra að taka kvörtunina til meðferðar og taka síðan afstöðu til hennar og skila til nefndarinnar sem síðan getur tekið ákvörðun um að hefja meðferð máls eður ei, þá sérstaklega ef um refsiverða háttsemi er að ræða.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×