Erlent

Aurskriða banaði 17 manns í Kólumbíu

Hallgerður Kolbrún E Jónsdóttir skrifar
Björgunarsveitir í Kólumbíu leita að eftirlifendum aurskriðu.
Björgunarsveitir í Kólumbíu leita að eftirlifendum aurskriðu. Getty/Lokman Ilhan
Minnst 17 eru látnir eftir að aurskriða féll á bæinn Rosas í Cauca héraðinu í suðvestur Kólumbíu í gær. Þetta kemur fram í tilkynningu frá yfirvöldum og greint er frá á breska ríkisútvarpinu BBC.

Fimm slösuðust þegar aurskriðan féll á húsaþyrpingu en miklar rigningar hafa verið á svæðinu og stendur leit enn yfir í rústunum.

Aurskriður eru algengar í landinu, sérstaklega á rigningartímanum, en bæjarstjórinn, Jesus Diaz sagði að „því miður gerist þetta þegar maður býst síst við því og vegna rigninganna er þetta það sem gerist.“

Verið er að leita að fleira fólki í rústunum en einnig er verið að hreinsa vegina sem aurskriðan féll á.

Forseti landsins, Iván Duque heimsótti bæinn í gær þar sem hann sagði fréttafólki að verið væri að veita þeim sem lentu í skriðunni læknisaðstoð og verið væri að leita að húsaskjóli fyrir það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×