Icelandair Group stefnir á að eiga áfram 20 prósent hlut í dótturfélagi þess, Icelandair Hotels, sem nú er í söluferli. Ákveðið hefur verið að ganga til lokasamningaviðræðna um sölu á hótelkeðjunni. Ekki er gefið upp við hvern Icelandair Group á í viðræðum við.
Þetta kemur fram í tilkynningu Icelandair Group til Kauphallar þar sem segir að viðræður aðila byggist á viljayfirlýsingu, sem hefur verið undirrituð af þeim sem koma að viðræðunum um helstu skilmála viðskipta. Sem fyrr segir er gert ráð fyrir því að Icelandair Group muni eiga 20 prósenta hlut í hinum seldu eignum.
Í tilkynningunni segir að nánar verði gert grein fyrir væntum kaupanda og fyrirhuguðum viðskiptum ef samningar nást. Stefnt er að því að viðskiptin eigi sér stað við lok annars ársfjórðungs 2019.
Icelandair Hotels rekur þrettán hótel í Reykjavík og á landsbyggðinni auk þess að reka einnig sumarhótelkeðjuna Hótel Eddu, en um er að ræða alls 1.937 herbergi á landinu öllu.
