Fimm mánaða drengur lést í Bologna á Ítalíu í gærkvöldi eftir að foreldrar hans höfðu reynt að umskera hann á heimili þeirra.
Drengurinn fékk hjartaslag við aðgerðina og var sendur á spítala í borginni, en lést stuttu eftir komuna þangað.
Yfirvöld á svæðinu hafa hafið rannsókn á málinu og beinist hún aðallega gegn foreldrum drengsins, sem sagðir eru vera frá Gana.
Stutt er síðan svipað mál kom upp á Ítalíu en í desember lést tveggja ára drengur í Róm vegna misheppnaðs umskurðar.
Opinberar heilbrigðisstofnanir á Ítalíu bjóða ekki upp á umskurði en áætlað er að um fimm þúsund slíkar aðgerðir séu framkvæmdar árlega. Þriðjungur þeirra er framkvæmdur á ólöglegan hátt samkvæmt góðgerðasamtökunum Amsi.
Barn lést eftir misheppnaðan umskurð í heimahúsi á Ítalíu
Vésteinn Örn Pétursson skrifar
