Erlent

Kjósa um mál á netinu sem gæti sprengt stjórnarsamstarfið

Atli Ísleifsson skrifar
Luigi Di Maio, leiðtogi Fimm stjörnu hreyfingarinnar, Giuseppe Conte forsætisráðherra og Matteo Salvini, leiðtogi Bandalagsins.
Luigi Di Maio, leiðtogi Fimm stjörnu hreyfingarinnar, Giuseppe Conte forsætisráðherra og Matteo Salvini, leiðtogi Bandalagsins. Getty
Ítalski stjórnarflokkurinn Fimm stjörnu hreyfingin stendur nú fyrir atkvæðagreiðslu á netinu meðal flokksmanna um mál sem gæti sprengt stjórnarsamstarfið.

Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar mun ráða því hvort að öldungadeildarþingmenn flokksins muni koma í veg fyrir sakamálarannsókn á máli tengdu Matteo Salvini, innanríkisráðherra og leiðtoga Bandalagsins (Lega).

Fimm stjörnu hreyfingin og Bandalagið eru bæði í hópi þeirra flokka sem saman mynda meirihluta á ítalska þinginu. Hafa komið upp ýmis mál síðustu mánuði sem hafa valdið núningi í stjórnarsamstarfinu.

Sakaður um mannrán og valdníðslu

Salvini var í ágúst á síðasta ári sakaður um mannrán og valdníðslu þegar hann kom í veg fyrir að 150 flóttamenn um borð í ítölsku strandgæsluskipi fengu að ganga á land í fimm daga.

Rannsóknin var lögð niður en saksóknari á Sikiley vill nú að rannsóknin verði tekin upp að nýju. Salvini hefur beint því til dómsmálanefndar þingsins að stöðva málið.

Leiðtogar Fimm stjörnu hreyfingarinnar hafa í málflutningi sínum lagt mikla áherslu á að stjórnmálamenn skuli ekki skipta sér af réttarkerfinu. Þá hefur flokkurinn einnig lagt áherslu á mikilvægi beins lýðræðis þar sem kjósa skuli um mikilvæg mál í atkvæðagreiðslum, til dæmis á netinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×