Erlent

Harðorður um Brexit-sinna

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðsins.
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðsins. Nordicphotos/AFP
„Ég hef verið að velta því fyrir mér hvernig sá krókur helvítis, sem ætlaður er þeim sem þrýstu á Brexit án nokkurrar hugmyndar um framkvæmdina, lítur út,“ sagði Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, á blaðamannafundi í gær. Tusk hafði þá lokið fundi með Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands, í Brussel.

Fundur Tusks og Varadkars snerist um Brexit. Pattstaða er í málinu þar sem breska þingið hafnaði samningi er ríkisstjórn Theresu May hafði gert við ESB og nú vilja Bretar fá umdeildu ákvæði um varúðarráðstöfun breytt. Ákvæðið varðar fyrirkomulag landamæra Bretlands og Írlands. Tusk sagði að varúðarráðstöfunin væri ekki á förum.

Þá sagðist hann vita að margir Bretar og Evrópubúar óskuðu þess að hætt yrði við Brexit. „Ég hef alltaf staðið með því fólki. En staðreyndir málsins eru þær að forsætisráðherrann og leiðtogi stjórnarandstöðunnar útiloka slíkt. Það er ekkert raunverulegt pólitískt afl sem vill beita sér fyrir áframhaldandi veru í ESB. Það er ekkert gleðiefni en sú er staðreyndin.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×