Það styttist í frumraun Mick Schumacher í Formúlu 1 en hann er kominn inn í akademíu ítalska bílaframleiðandans Ferrari samkvæmt heimildarmanni BBC.
Mick er sonur sjöfalda heimsmeistarans Michael Schumacher, manns sem margir segja einn besta ökuþór Formúlunnar frá upphafi, og hann hefur nú fengið inngöngu í akademíu félagsins sem faðir hans keyrði svo lengi fyrir.
Hinn 19 ára Schumacher yngri er að hefja sitt fyrsta tímabil í Formúlu 2, síðasta skrefinu fyrir Formúlu 1, þar sem hann keyrir fyrir lið Prema.
Hluti af samningi hans við akademíu Ferrari er að hann mun fá að keyra í tveimur prófunum fyrir Formúlu 1 fyrir Ferrari.
Michael Schumacher varð fimmtugur fyrr í mánuðinum en hann hefur ekki sést opinberlega í sex ár eða síðan hann lenti í mjög alvarlegu skíðaslysi.
Ferrari vildi ekki staðfesta inngöngu Schumacher yngri í akademíuna.
Schumacher yngri kominn í akademíu Ferrari

Tengdar fréttir

Fimm ár frá hræðilegu skíðaslysi Michael Schumacher
Í dag eru fimm ár frá skíðaslysinu hræðilega sem formúlukappinn Michael Schumacher lenti í og slasaðist alvarlega.

Schumacher yngri sagður geta farið alla leið
Það er ekki lítil pressa að vera í kappakstri og bera þess utan eftirnafnið Schumacher. Hinn 19 ára gamli Mick Schumacher virðist þó hafa allt til að bera. Honum er spáð frægð og frama á komandi árum.

Litli Schumacher skákaði goðsögninni föður sínum og færist nær Formúlu 1
Mick Schumacher ætlar sér í að feta í fótspor föður síns sem hefur ekki sést opinberlega í fimm ár.