Erlent

Corbyn hundsaði boð May um viðræður

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Jeremy Corbyn á fundi í Hastings í gær.
Jeremy Corbyn á fundi í Hastings í gær. Nordicphotos/AFP
Viðræðurnar sem Ther­esa May átti í gær og fyrrakvöld við leiðtoga flokka á þingi eru sýndarmennskan ein ef hún tekur ekki möguleika á samningslausri útgöngu úr ESB af borðinu. Þetta segir Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins. Corbyn hefur talað gegn samningslausri útgöngu en sú niðurstaða varð líklegri þegar breska þingið hafnaði samningnum sem ríkisstjórnin hafði gert við ESB. Tap May á þriðjudag var það stærsta í sögu bresks lýðræðis.

May hefur áður neitað að slá samningslausa útgöngu út af borðinu. Corbyn sagði að ef May geri það ekki sé hún að tefja. Þingið muni neyðast til að samþykkja samning hennar þegar nær dregur til að komast hjá samningslausri útgöngu.

Þótt Corbyn lítist ekki á viðræðurnar átti May fjölda funda í gær. Meðal annars með Ian Blackford, þingflokksformanni Skoska þjóðar­flokksins (SNP), hörðum Brexit-sinnum í Íhaldsflokknum, Vincent Cable, formanni Frjálslyndra Demókrata, og leiðtogum Lýðræðislega sambandsflokksins (DUP). Með fundunum vonast hún til þess að komast að því hvað vantar upp á svo þingið geti samþykkt samning hennar. Í kjölfarið heldur hún til Brussel.

„Vilji forsætisráðherrans til þess að ræða smáatriði þessa máls gleður mig,“ sagði Cable.

May leggur fram áætlun stjórnarinnar um næstu skref á mánudag. Þá munu þingmenn geta gert breytingartillögur. Kosið verður um áætlunina og breytingartillögur á þriðjudag.

Skammur tími er til stefnu. Formlegur útgöngudagur er 29. mars. Þingið vill ekki samning May, ESB segir það eina samninginn í boði og enginn vill samningslausa útgöngu. Hægt er að fresta útgöngudegi en það hefur stjórnin ekki viljað. Hefur þess í stað talað um það sem skyldu sína að uppfylla þá kröfu Breta úr þjóðaratkvæðagreiðslunni 2016. Bretar þurfa að komast að samkomulagi sem fyrst, vilji þeir afstýra samningslausri útgöngu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×