Viðskipti innlent

Risar í íslenskri ferðaþjónustu sameina krafta sína

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Samkomulagið felur í sér að Arctic Adventures hf. kaupir alla hluti í Into the Glacier ehf. af Icelandic Tourism Fund (ITF) og Sigurði Skarphéðinssyni framkvæmdastjóra Into the Glacier.
Samkomulagið felur í sér að Arctic Adventures hf. kaupir alla hluti í Into the Glacier ehf. af Icelandic Tourism Fund (ITF) og Sigurði Skarphéðinssyni framkvæmdastjóra Into the Glacier. Arctic Adventures
Arctic Adventures hf. og Icelandic Tourism Fund (ITF) hafa gert samkomulag um sameiningu Into the Glacier ehf. og Arctic Adventures. Sameinað félag mun starfa undir merkjum Arctic Adventures.

ITF hefur einnig selt Arctic Adventures hluti í fjórum afþreyingarfyrirtækjum í ferðaþjónustu sem eru með starfsemi víðsvegar um landið. Um er að ræða hluti í Óbyggðasetrinu í Fljótsdal, Raufarhólshelli, Borea Adventures á Ísafirði og leiksýningunni „Icelandic Sagas - The greatest hits“ sem sýnd er í Hörpu.

Frá þessu er greint í fréttatilkynningu til fjölmiðla í dag sem sjá má hér að neðan. Þar kemur fram að samanlögð velta fyrirtækjanna hafi verið sjö milljarðar á nýliðnu ári en starfsmenn eru samanlagt um 300. Samruninn er gerður með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins, niðurstöðu áreiðanleikakönnunar á fyrirtækjunum og í ákveðnum tilvikum samþykki annarra hluthafa í fyrirtækjunum.

Samkomulagið felur í sér að Arctic Adventures hf. kaupir alla hluti í Into the Glacier ehf. af Icelandic Tourism Fund (ITF) og Sigurði Skarphéðinssyni framkvæmdastjóra Into the Glacier.

Kaupverðið er greitt með hlutum í Arctic Adventures hf. sem þýðir að við sameininguna verða ITF og Sigurður Skarphéðinsson hluthafar í sameinuðu félagi. Viðskiptin byggja á mati fyrirtækjaráðgjafar Kviku á verðmæti fyrirtækjanna.

Frekari upplýsingar úr tilkynningu vegna samrunans má sjá að neðan.

Jón Þór Gunnarsson, forstjóri Arctic Adventures.

300 þúsund viðskiptavinir í fyrra

Jón Þór Gunnarsson forstjóri Arctic Adventures segir markmið félagsins vera að skapa öflugt og samkeppnishæft félag sem sé betur í stakk búið til að takast á við þá alþjóðlegu samkeppni sem íslensk ferðaþjónusta á í.

„Afþreying fyrir ferðafólk er lykilþáttur í íslenskri ferðaþjónustu og eiga fyrirtækin í þessum geira í sívaxandi alþjóðlegri samkeppni. Með sameiningu við Into the Glacier og kaupum í fjórum öðrum fyrirtækjum getur Arctic Adventures nú boðið upp á þjónustu í beinu samstarfi við ferðþjónustuaðila í öllum landshlutum sem skiptir okkur miklu máli.“

Helgi Júlíusson framkvæmdastjóri ITF segir að þessi viðskipti nú séu í takt við markmið sjóðsins um að byggja upp öflug ferðaþjónustufyrirtæki á sviði afþreyingar sem boðið geta fjölbreytta þjónustu og styrkt Ísland sem ferðamannastað allt árið um kring. „Samþætting þeirra félaga sem í hlut eiga mun án efa styrkja samkeppnishæfni þeirra og skapa þeim sterkari stöðu á alþjóðlegum markaði.“

Arctic Adventures hf. starfar á sviði afþreyingar í ferðaþjónustu. Fyrirtækið hefur vaxið hratt síðustu ár og hefur rekstur þess gengið vel. Into the Glacier rekur íshelli í Langjökli sem var opnaður árið 2015 og hefur aðsóknin verið góð allt frá opnun og rekstur gengið vel. Samanlögð velta Arctic Adventures og Into the Glacier árið 2018 er tæplega 7 milljarðar króna og hjá þeim starfa um 300 manns. Viðskiptavinir Arctic Adventures voru 250.000 á árinu og 63.000 manns heimsóttu íshellinn. Nánari upplýsingar um félögin er að finna á www.adventures.is og www.intotheglacier.is.

Iceland Tourism Fund (ITF) er framtakssjóður í rekstri Landsbréfa sem stofnaður var árið 2013 að frumkvæði Icelandair Group. Markmiðið með stofnun sjóðsins var að fjárfesta í uppbyggingu afþreyingartengdrar ferðaþjónustu á Íslandi og stuðla þannig að fjölbreyttari afþreyingarkostum fyrir ferðafólk á Íslandi og styrkja landið sem áfangastað. Sérstök áhersla hefur verið lögð á að fjárfesta í starfsemi sem rekin er allt árið og nýtir sem best þá innviði sem til staðar eru í greininni. Þá hefur verið lögð sérstök áhersla á að fjárfesta í verkefnum á landsbyggðinni.

Kaupverð greitt með hlutum í Arctic Adventures

Arctic Adventures hefur einnig gert samkomulag við ITF um kaup á hlutum sjóðsins í fjórum afþreyingarfyrirtækjum í ferðaþjónustu. Það eru Óbyggðasetrið ehf. sem rekur Óbyggðasetrið í Fljótsdal, Raufarhóll ehf. sem starfrækir ferðaþjónustu í Raufarhólshelli, Skútusiglingar ehf. á Ísafirði sem rekið er undir vörumerkinu Borea Adventures og Welcome Entertainment ehf. sem á og rekur leiksýninguna „Icelandic Sagas - The greatest hits“ sem sýnd er í Hörpu. Kaupverðið er sömuleiðis greitt með hlutum í Arctic Adventures. Félögin verða áfram rekin sjálfstætt en í nánu samstarfi við Arctic Adventures.

Ofangreint er gert með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins, niðurstöðu áreiðanleikakönnunar á fyrirtækjunum og í ákveðnum tilvikum samþykki annarra hluthafa í fyrirtækjunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×