Lík níu námuverkamanna fundust í námu í eigu áburðarverksmiðjunnar Uralkali í Permfylki Rússlands í dag. Mennirnir höfðu verið við pottösku uppgröft þegar eldur kom upp og breiddist um námuna. Átta námuverkamenn komust út en níu voru innikróaðir af eldinum. AP greinir frá.
Forseti Rússlands, Vladimir Putin hefur fyrirskipað rannsókn á tildrögum slyssins. Yfirvöld á svæðinu telja að lélegum öryggisstöðlum hafi verið um að kenna. Öryggi í rússneskum námum hefur oft verið talið ábótavant, síðasta stóra námuslysið í Rússlandi var í ágúst 2017 þegar 17 drukknuðu þegar flæddi inn í demantanámu.
