Skoðun

Sannleikur og réttlæti

Bjarni Karlsson skrifar
Fátt hefur kennt mér meira í lífinu en eigin mistök. Þegar ég lít yfir farinn veg er ég ekki síst þakklátur því sem ég hef klúðrað. Þó er ein gerð mistaka sem ég get ekki þakkað. Það er þegar ég hef valdið öðru fólki tjóni. Mér verður æ oftar hugsað til fólks sem ég óttast að ég hafi skaðað með einhverjum hætti. Þegar ég íhuga þetta sé ég að sjaldnast var það vegna ofdrykkju, þótt slíkt hafi hent, en furðu oft hef ég valdið persónum tjóni þegar ég var fullur af réttlætiskennd. Réttlæti og sannleikur eru vandmeðfarin fyrirbæri. Í dag sé ég betur en fyrr að ég er ekki handhafi sannleikans og jafnvel þegar ég hef algjörlega rétt fyrir mér get ég ekki treyst því að ég sé sjálfur réttlátur.

Við þekkjum flest ástandið sem skapast í húsi þegar barn er nýkomið í heiminn. Allir fara hljóðlega og allt snýst um þarfir barnsins. Kannski var maður aldrei nær því að vera maður sjálfur en fyrstu dagana fullur af kvíða og þakklæti undir valdi hins nýfædda. Getur hugsast að líkt og nýfætt barn er ekki eign foreldra sinna heldur eru ástvinirnir handa barninu, þannig sé heldur aldrei hægt að eigna sér sannleikann og réttlætið?

Besta vinnutilgátan við ungbarn er sú að þjóna því. Skyldi það vera eins með sannleikann og réttlætið? Stundum þarf vissulega að bregðast hart við í þágu barna, en allt sem við gerum verður að vera laust við sjálflægni í ljósi þess að barnið á sitt eigið líf sem við getum ekki ákvarðað eða sagt fyrir um.

Ég vildi óska að ég hefði alltaf hugsað meira um að þjóna réttlætinu en að framkvæma það og fremur sóst eftir því að vera á valdi sannleikans en að valda honum.




Skoðun

Sjá meira


×