Erlent

Rannsaka eyðslu í tengslum við embættistöku Trump

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Trump sór embættiseið sem 45. forseti Bandaríkjanna þann 20. janúar 2017.
Donald Trump sór embættiseið sem 45. forseti Bandaríkjanna þann 20. janúar 2017. Getty/anadolu
Alríkissaksóknarar í New York hafa hafið sakamálarannsókn á því hvort að nefnd sem bar ábyrgð á innsetningu Donald Trump í embætti Bandaríkjaforseta í ársbyrjun 2017, hafi misfarið með hluta þess fé sem hún safnaði.

Wall Street Journal greinir frá málinu. Í fréttinni kemur fram að rannsóknin snúi að því hvort að styrktaraðilar hafi gefið fé í skiptum fyrir tilslakanir á löggjöf, að hafa áhrif á skipanir í embætti eða annars konar aðgang að Trumpstjórninni.

Rannsóknin gæti enn aukið þrýsting á Donald Trump og stjórn hans sem fást nú þegar við fjölda dómsmála og rannsókna. Snúa þær meðal annars að afskiptum Rússa af forsetakosningunum 2016, greiðslur fyrrverandi lögmanns forsetans til kvenna fyrir að þegja um samskipti þeirra og Trump og fjárgreiðslur úr sjóðum Trump.

Gögn frá Cohen

WSJ segir frá því að rannsóknin nú komi í kjölfar þess að gögn frá Michael Cohen, fyrrverandi lögmanni Trump, komust í hendur saksóknara. Cohen var í gær dæmdur í þriggja ára fangelsi eftir að hafa játað að hafa gerst sekur um brot á kosningalögum, skattsvik og að hafa logið að rannsóknarnefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.

Alríkissaksóknarar í New York hafa ekki viljað tjá sig um frétt WSJ.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×