Starfsfólk WOW Air mun fá greidd laun um næstu mánaðamót. Þetta fullyrðir Stefán Sigurðsson, fjármálastjóri flugfélagsins, í tölvupósti sem hann sendi starfsmönnum í morgun. Þar segir hann jafnframt að launin verði greidd út á föstudag og að tilefni póstsendingarinnar séu vangaveltur starfsmanna síðustu daga, sem hafi sett sig í samband við hann.
„Langar mig að senda ykkur stutta línu til þess að upplýsa ykkur um að mánaðalaun verða að sjálfsögðu greidd út á réttum tíma, föstudaginn 30. nóvember,“ hefur Fréttablaðið upp úr pósti Stefáns.
Sjá einnig: Óþreyju gætir meðal leigusala WOW air
Fréttablaðið greindi jafnframt frá því í morgun að „vaxandi óþreyju“ gæti meðal eigenda flugvéla sem eru í rekstri WOW air. Óttast leigusalarnir, sem eru aðallega félög sem sérhæfa sig í fjármögnun og útleigu flugvéla, að samruni flugfélagsins og Icelandair gangi ekki eftir og að WOW air takist ekki að standa í skilum um næstu mánaðamót með greiðslu afborgana. Þar var tekið fram að líklegt þætti þó að WOW myndi ná að greiða starsfólki sínu laun um mánaðamótin.
Þá var greint frá því í gær að fækkað yrði í flota WOW Air um fjórar vélar. Í svari til mbl segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi flugfélagsins, að ekki sé vitað hvaða áhrif vélafækkunin muni hafa á starfsmannafjölda WOW.
