Hekla keypti miða á hátíðina af þeirri ástæðu einni að listamaðurinn sem hún heldur svo mikið upp á var á dagskránni. Hún varð hins vegar frá að hverfa á versta tíma og með versta hætti. Hún fékk ælupest.
Hekla lýsir atburðarásinni á samfélagsmiðlum og rekur aðdáun sína á sveitinni.

Tónlistin hans á í beinu samtali við sálina mína á hverjum degi. Ég er ekki mikið gefin fyrir tónlistarhátíðir en þegar ég komst að því að hann ætti að spila á Airwaves gat ég ekki annað en keypt mér miða.“
Tónleikarnir fóru fram á jarðhæð Hörpu, salnum Flóa þar sem matarmarkaðir og aðrir fara reglulega fram í suðurenda hússins. Hekla var mætt einum og hálfum tíma fyrir tónleikana til að tryggja sér stæði á besta stað.
„Stóra stundin var að renna upp. Ég var að fara að sjá Blood Orange með berum augum.
Allt í einu fannst mér ég eitthvað slöpp svo ég settist niður og hvíldi lúin bein á meðan ég beið. Tíu mínútur í tónleika og ég stóð ég svo upp en um leið fann ég að það var eitthvað mikið að. Mig svimaði og fannst eins og meðvitundin væri að fjara út.“

„Ég flýtti mér eins og ég gat út úr þvögunni og var rétt komin úr henni þegar ælan byrjaði að gusast út úr mér af krafti. Án gríns, ég hef ekki séð neitt þessu líkt síðan ég sá Team America: World Police. Þessu ætlaði aldrei að linna. Ég ældi á gólfið, í ruslið, í hárið á mér og á fötin mín.“
„Þeir sögðust ætla að ná í handklæði fyrir mig til að þrífa mig með. Fimm mínútur í tónleika með uppáhalds tónlistarmanninum mínum og ég er að faðma ruslafötu í Flóa í Hörpunni og marinerast í eigin ælu fyrir framan hundruðir manna. Biðin eftir handklæðinu var mér sem eilífð.“
Hekla þurfti að sætta sig við að missa af tónleikum Blood Orange enda bauð heilsa hennar ekki upp á annað. Hún biður hins vegar fyrir kveðju til hans og skrifar kveðjuna á ensku. Hver veit nema hún rati til listamannsins á endanum.

Aðspurð um heilsu sína í dag, hvort hún sé á uppleið, segir Hekla:
„Njah, ég er náttúrulega með ælupest og hita auk þess sem ég mun líklega aldrei jafna mig á niðurlægingunni. Ég hef þó trú á því að lífið muni greiða mér skaðabætur á einn eða annan hátt og að einn góðan veðurdag verði ég við hestaheilsu að upplifa drauminn á Blood Orange tónleikum.“