Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, hefur sagt upp störfum. Hugur hans leitar til Selfoss þar sem hann ætlar að taka þátt í uppbyggingu nýs miðbæjar en Guðjón er Selfyssingur að uppruna. Greint er frá vistaskiptum Guðjóns í Morgunblaðinu í dag.
Guðjón er reglulegur viðmælandi í fjölmiðlum enda málefni íslenskra flugfélaga oft í brennidepli. Áður starfaði Guðjón, líkt og margur upplýsingafulltrúinn, við blaðamennsku. Meðal annars á Dagblaðinu Vísi, Helgarpóstinum. Morgunblaðinu og á Stöð 2.
Hann lýsir starfinu, sem auglýst verður til umsóknar innan tíðar, sem fjölbreyttu og skemmtilegu. Aðeins hluti þess snúi út á við, þ.e. að svara fyrir flugfélagið í fjölmiðlum.
„ Hluti þess snýr að þátttöku í almennri stjórnun félagsins sem mér hefur þótt heillandi, enda starfar fyrirtækið í alþjóðlegu umhverfi og margt á dagana drifið undanfarin 18 ár, t.d. hryðjuverkin 9/11 2001, hamagangurinn fyrir hrun, hrunið sjálft, Eyjafjallajökulsgosið og svo vöxturinn núna undanfarin ár og uppbygging ferðaþjónustunnar, svo eitthvað sé nefnt. Það er gaman að hafa verið með í ákvarðanatöku um helstu þætti í flugi- og ferðaþjónustu á þessum umbrotatíma, sem hefur valdið grundvallarbreytingum í samfélaginu, og mikill heiður að hafa verið treyst fyrir því svona lengi að tala fyrir hönd þess öfluga liðs sem myndar Icelandair,“ segir Guðjón í Morgunblaðinu.
Guðjón ætlar að taka þátt í uppbyggingunni á Selfossi með vini sínum Leo Árnasyni. Hugmyndir þeirra snúa að því að í nýjum miðbæ Selfyssinga verði um 35 hús í klassískum stíl þar sem koma saman íbúðir, verslanir, skrifstofur og kaffihús svo eitthvað sé nefnt. Um hitamál er að ræða á Selfossi og var staðið að íbúakosningu vegna nýs skipulags í ágúst. 58,5% voru hlynnt nýju skipulagi en 39,1% á móti.
Guðjón lendir eftir átján ár á flugi
