Fótbolti

Fjórtán frábær ár með Messi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ungur Messi fagnar í leik með Barcelona.
Ungur Messi fagnar í leik með Barcelona. vísir/getty
Það munu eflaust einhverjir stuðningsmenn Barcelona skála í kvöld fyrir því að í dag eru fjórtán ár síðan Lionel Messi spilaði sinn fyrsta leik fyrir félagið.

Fyrsti leikurinn var gegn nágrannaliðinu Espanyol. Hann kom af bekknum á 82. mínútu og var þá 17 ára, þriggja mánaða og 22 daga gamall. Þá var hann sá yngsti til þess að spila fyrir félagið.

Síðustu fjórtán ár eru lyginni líkust og árangur félagsins, sem og leikmannsins, á þessum árum ótrúleg. Messi er búinn að spila 647 leiki fyrir félagið og skora í þeim leikjum 562 mörk. Það er auðvitað fáranleg tölfræði.

Argentínumaðurinn hefur fimm sinnum verið valinn besti knattspyrnumaður heims og fimm sinnum hefur hann verið sá markahæsti í Evrópu.





Spænsku deildina hefur Messi unnið níu sinnum með Katalóníu-félaginu og Meistaradeildina fjórum sinnum. Spænski bikarinn hefur sex sinnum komið í hús með Messi í liðinu.

Á þessum fjórtán árum er Barcelona líka búið að vinna HM félagsliða þrisvar sinnum og Ofurbikar UEFA einnig í þrígang.

Þokkaleg uppskera hjá 170 sentimetra strák frá Rosario í Argentínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×