Ekki eru nema fimm mánuðir síðan WOW hóf reglulegt áætlunarflug til borganna. Auk St. Louis, Cincinnati og Cleveland hóf WOW einnig að fljúga til Detroit í upphafi árs en haft er eftir Svanhvíti Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa flugfélagsins, á vef USA Today að WOW hafi ekki í hyggju að hrófla við flugi til þessarar stærstu borgar Michigan-ríkis.
Aðspurð um hvort til standi að gera einhverjar breytingar á áætlunarflugi WOW til JFK-flugvallar í New York eða til Dallas í Texas segir Svanhvít að engin hafi ákvörðun hafi verið tekin í þeim efnum.

Flugfélagið hefur sem kunnugt er glímt við fjárhagserfiðleika að undanförnu en vonir standa til þess að það sé komið yfir erfiðasta hjallann eftir að félagið tryggði sér 60 milljóna evra fjármögnun í síðasta mánuði. Félagið hefur að undanförnu leitað leiða til að hagræða í rekstri en tíu starfsmönnum var sagt upp hjá Wow air í byrjun mánaðarins.
Þá var einnig tilkynnt fyrir skömmu að félagið myndi hætta að fljúga til Stokkhólms, Edinborgar og San Francisco. WOW tilkynnti þó í gær að félagið myndi að nýju fljúga til Tel Aviv í Ísrael.