Fótbolti

Ronaldo búinn að kaupa meirihluta í Real Valladolid

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ronaldo með HM-bikarinn sem hann vann bæði 1994 og 2002.
Ronaldo með HM-bikarinn sem hann vann bæði 1994 og 2002. Vísir/Getty
Ronaldo hefur keypt upp 51 prósent eignarhluta í spænska úrvalsdeildarliðinu Real Valladolid.

Þessi fyrrum leikmaður Real Madrid, Barcelona og brasilíska landsliðsins keypti meirihluta í félaginu fyrir 30 milljón evrur.

Ronaldo var á sínum tíma besti fótboltamaður í heimi og lengi markahæsti leikmaður HM frá upphafi.





Meðal eiganda spænska félagsins eru forseti félagsins og fyrrum meirihluta eigandi, Carlos Suarez sem og Oscar Puente, borgarstjóri Valladolid.

„Ég hef náð mér í mikla reynslu á mínum fótboltaferli og sú reyna hefur undirbúið mig fyrir að taka þetta skref núna. Fótboltinn er alltaf ástríða fyrir mig,“ sagði Ronaldo á blaðamannafundi þar sem kaup hans voru kynnt.





Carlos Suarez átti 66 prósent hluta í félaginu en var tilbúinn að selja Ronaldo stóran hluta af því.

„Koma Ronaldo mun setja Real Valladolid á kortið og hjálpa félaginu að ná í hæfileikaríka leikmenn. Ég býð hann velkominn hingað,“ sagði Carlos Suarez.

Diario de Valladolid hafði skrifað frétt um möguleg kaup Ronaldo síðasta vor og að þau myndu aðeins ganga í gegn ef liðið kæmist upp í La Liga sem það og gerði.





Skuldir Real Valladolid eru sagðar vera 25 milljónir evra.

Ronaldo mun nú setjast í forsetastól Real Valladolid en Carlos Suarez verður í meira fulltrúahlutverki.

Real Valladolid var mikið í fréttunum í síðustu viku þegar leikmenn Barcelona kvörtuðu yfir ástandinu á grasinu á leikvangi félagsins. Leikmenn Barca tóku þá upp heilu þökurnar.

Ronaldo lék á sínum tíma 37 leiki með Barcelona í spænsku deildinni og 127 leiki með Real Madrid. Hann skoraði 34 deildarmörk fyrir Barca og 83 deildarmörk fyrir Real. Ronaldo var því alls með 117 mörk í aðeins 164 leikjum í spænsku deildinni.

Ronaldo lék einnig með bæði Internazional og AC Milan og er sá eini sem hefur skorað fyrir bæði lið í Mílanó derby leiknum og El Clasico.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×