Sport

Hægt að spila crossfit-fantasy leik í tengslum við heimsleikana í ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Í hvaða sæti ætli Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir endi í ár?
Í hvaða sæti ætli Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir endi í ár? Mynd/Twitter/@CrossFitGames
Heimsleikarnir í crossfit hefjast í Madison í Bandaríkjunum á morgun með mjög svo krefjandi degi en 40 karlar og 40 konur munu keppa um sigurinn á þessum tólftu heimsleikum sögunnar.

Margir munu eflaust fylgjast vel með gangi mála á leikinum í ár og ekki síst hvernig íslensku keppendunum muni ganga en þeir eru fimm talsins að þessu sinni. Áhuginn hefur aukist mikið á crossfit íþróttinni síðustu ár og hún er gríðarlega vinsæl hér heim á Íslandi.

Draumadeildir eru þekktar í mörgum íþróttum ekki síst í Bandaríkjunum þar sem Fantasy-leikir eru mjög vinsælir.

Nú er einnig hægt að spila crossfit-fantasy leik í kringum heimsleikana í ár. Þetta er annað árið í röð sem crossfit samtökin bjóða upp á slíkt í samstarfi við Reebok íþróttavöruframleiðandann. Crossfit-fantasy leikurinn er mun stærri en hann var í fyrra.

Þátttakendur fá það verkefni að spá hverjir enda í tíu efstu sætunum í karla- og kvennaflokki sem og fimm efstu í liðakeppni.

Hver fær 100 stig fyrir að vera með íþróttamann í réttu sæti, 50 stig fyrir að vera með íþróttamann í einu sæti frá réttu sæti, 20 stig fyrir að vera tveimur stigum frá því og 10 stig fyrir að vera þremur sætum frá því að setja viðkomandi í rétt sæti.

Fyrir þann sem giskar rétt á öll tuttugu sætin þá mun sá hinn sami fá tvær milljónir dollara í verðlaunafé eða meira en 210 milljónir íslenskra króna. Það yrði hinsvegar mikið afrek að ná því.

Það eru hinsvegar einnig verðlaun fyrir að vinna draumaleikinn sjálfan.

Þeir sem hafa áhuga á að vera með þurfa að ganga frá sínum þátttökuseðli fyrir miðnætti í kvöld að bandarískum tíma.

Hægt er að nálgast crossfit-fantasy leikinn með því að smella hér en hér fyrir neðan má síðan sjá útskýringu á leiknum.


Tengdar fréttir

Katrín Tanja: Stolt af því að vera kona með vöðva

Íslenska krossfitstjarnan Katrín Tanja Davíðsdóttir ætlar sér að endurheimta titilinn hraustasta kona heims þegar heimsleikarnir hefjast í Madison í Wisconsin fylki í Bandaríkjunum í þessarri viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×