Í samtali við Guardian segist kafarinn vera furðulostinn og brjálaður út af ásökununum, en Musk reiddi ekki fram nein sönnunargögn þeim til stuðnings. Hann hefur nú eytt færslunum þar sem ásakanirnar komu fram.
Unsworth segir að ummæli tæknirisans væru ekki aðeins árás á sig heldur björgunaraðgerðina eins og hún leggur sig. „Ég heyrði að hann hefði kallað mig barnaníðing,“ segir Unsworth. „Mig grunar að fólk átti sig nú á því hverslags maður hann er,“ bætti hann við og vísaði til Musk. Aðspurður um hvort hann ætli sér að leita réttar síns svaraði Unsworth: „Já, þessu er ekki lokið.“
Sjá einnig: Elon Musk svarar björgunarmanninum: „Sorrý barnaperri, þú baðst um þetta“

Eftir ummæli Unsworth fór Musk á Twitter-síðu sína og dældi út ótal færslum um getu kafbátsins. Sagðist hann meðal annars ætla að birta myndband til að sýna fram á hvernig kafbáturinn gæti smeygt sér inn um minnstu glufur áður en hann bætti við: „Sorrý barnaperri, þú baðst um þetta.“ Færslunum hefur nú verið eytt.
Unsworth, sem býr í Tælandi, var meðal fyrstu manna á vettvang þegar fregnir bárust af raunum fótboltadrengjanna 12 sem skriðið höfðu ofan í helli með þjálfaranum sínum í lok júnímánaðar. Hann er sagður hafa nýtt sér gríðarlega þekkingu sína á hellakerfinu til að finna strákana og svo aðstoðað við að ná þeim út, rúmum tveimur vikum eftir að þeir höfðu haldið ofan í hellinn.
Unsworth segist hafa vistað afrit af tístum Musk sem hann sakar um að hafa „tapað þræðinum.“
„Ég finn fyrir miklum stuðningi frá fólki um allan heim sem furðar sig á þessum tilhæfulausu ummælum,“ segir Unsworth. Hann segist ekki hafa rætt neitt við Musk síðan að aðgerðunum lauk. „Ég þekki þennan mann ekki neitt, hef aldrei hitt hann og mig langar ekki að hitta hann.“