Erlent

Umdeild ummæli þingkonu reita Trump til reiði

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Maxine Waters.
Maxine Waters. Vísir/AFP
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur enn og aftur vakið athygli fyrir ummæli á Twitter en hann þykir hafa gengið nokkuð hart að þingkonu Demókrataflokksins, Maxine Waters, í kjölfar þess að Söruh Sanders, talskonu Hvíta hússins, var sagt að yfirgefa veitingastað í vikunni.

Waters hvatti til sambærilegra aðgerða í garð annarra meðlima ríkisstjórnar Trumps er hún ávarpaði stuðningsmenn sína á fjöldafundi á laugardag. „Segið þeim að þau séu ekki velkomin neins staðar,“ var m.a. haft eftir Waters á fundinum en tilefnið er stefna ríkisstjórnar Trumps í innflytjendamálum, þar sem fjölskyldur ólöglegra innflytjenda hafa verið aðskildar við komuna yfir suðurlandamæri Bandaríkjanna.

Í viðtali, sem Waters veitti sjónvarpsstöðinni MSNBC eftir fundinn, beindi hún því einnig til Bandaríkjamanna að þeir skyldu „áreita“ embættismenn Trumpstjórnarinnar þangað til að þeir segðu skilið við forsetann.

Trump gagnrýndi þessar tillögur Waters harðlega á Twitter í gær og sagði henni að stíga varlega til jarðar. „Gættu þín á því hvers þú óskar þér, Max,“ skrifaði Trump. Þá kallaði forsetinn þingkonuna „einstakling með ótrúlega lága greindarvísitölu“ og sakaði hana um að kalla eftir því að stuðningsmönnum sínum yrði gert mein.

Ummæli bæði Trumps og Waters hafa reynst umdeild. Donald Trump yngri, sonur forsetans, og Meghan McCain, sjónvarpskona og tengdadóttir þingmanns Repúblikana John McCain, hafa gagnrýnt tillögur Waters og túlka skilaboðin á þann veg að hún hvetji til ofbeldisverka.

Öðrum þykir Waters einmitt ekki hafa ýjað að því að stuðningsmenn sínir beiti Repúblikana ofbeldi. Þá hafa margir gagnrýnt forsetann og telja hann með skrifum sínum hafa hótað þingkonunni.


Tengdar fréttir

Donald Trump lastar Jimmy Fallon

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, lét spjallþáttarstjórnandann Jimmy Fallon heyra það á Twitter.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×