Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair.
Í heimsferðunum er mikil áhersla lögð á fyrsta flokks þægindi, veitingar og þjónustu.
„Þetta er mikil viðurkenning fyrir Loftleiðir og starfsfólk Icelandair Group. Sérstakar innréttingar hafa verið settar í vélarnar til þess að sinna ferðunum. Flugliðar okkar og matreiðslumeistarar hafa fengið hæstu einkunn hjá farþegum þessara ferða í gegnum tíðina. Orðsporið er því gott sem hefur leitt til þess að mikil eftirspurn er eftir þjónustunni“, segir Árni Hermannsson, framkvæmdastjóri Loftleiða Icelandic, í tilkynningunni.

Að jafnaði verða 13 áhafnarmeðlimir í hverri ferð, 3 flugmenn, 7 flugfreyjur/þjónar, 2 matreiðslumeistarar og 1 flugvirki. Áætlað er að yfir 30 ferðir verði farnar á samningstímabilinu.
Loftleiðir Icelandic hafa í samstarfi við Icelandair sérhæft sig í slíkum ferðum á undanförnum árum með vaxandi umsvifum fyrir helstu ferðaskrifstofur á þessu sviði. Að baki hverri ferð liggur mikil vinna víða innan fyrirtækisins. Reynsla og þekking starfsmanna hefur komið að sérstaklega góðum notum, hvort sem er við uppfærslu á farþegarými eða við skipulagningu ferðanna, sérstaklega þar sem oft er flogið á frumstæðar og framandi slóðir. Á undanförnum árum hafa vélar Icelandair heimsótt sjö heimsálfur í sambærilegum leiguflugum.